KAON færir almennu göngudeildinni gjöf

Á myndinni má sjá starfsfólk almennu göngudeildarinnar ásamt stjórnar- og starfsmönnum KAON við nýju…
Á myndinni má sjá starfsfólk almennu göngudeildarinnar ásamt stjórnar- og starfsmönnum KAON við nýju stólana og borðin.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis afhenti formlega á dögunum almennu göngudeildinni á SAK þrjá meðferðarstóla og þrjú hliðarborð.

En mikil aukning hefur orðið á blóð- og krabbameinsmeðferðum á síðastliðnum árum og stefnir áfram í mikla aukningu.

„Þessi viðbót er því afar mikilvæg fyrir starfsemina. Þær lyfjameðferðir sem eru gefnar á deildinni eru mjög mismunandi langar, allt frá einni klukkustund og upp í átta klukkustundir og því er afar mikilvægt að hafa góða stóla. Stólarnir sem félagið færði deildinni eru sömu gerðar og deildin er með í notkun og eru því nú 16 slíkir stólar til á deildinni ásamt tveimur Lazyboy stólum. Þessir meðferðarstólar eru afar góðir og öruggir og tryggja að öryggiskröfur séu uppfylltar t.d. ef bráðatilvik koma upp. Við á deildinni þökkum félaginu innilega fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem stuðlar að betri aðstöðu fyrir skjólstæðinga okkar og starfsfólk,“ segir Inga Margrét Skúladóttir deildarstjóri á almennu göngudeildinni.

Mikilvægt fyrir bæði sjúklinginn og starfsfólk.

„Það er mikið ánægjuefni fyrir stjórn að geta lagt göngudeildinni lið með því að félagið gefi þessa þrjá meðferðastóla ásamt borðum, ekki síst í ljósi þess að meðferðum er stöðugt að fjölga. Það tekur á að vera í lyfjagjöf, sem getur tekið einhverja klukkutíma í einu. Þá er mikilvægt að sjúklingurinn sé í þar til gerðum stól sem hægt að stilla eftir þörfum. Stólarnir og borðin eru líka mikilvægir til að skapa góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk, sem þarf þá t.d. ekki að bogra yfir sjúklingnum við að setja upp nál. Sjálfur hef ég verið reglulegur viðskiptavinur göngudeildar í nokkur ár og hef því séð hvar skórinn kreppir,“ segir Pétur Þór Jónasson formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

 

Stjórn og starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis þakkar fyrir þá velvild sem félagið nýtur frá samfélaginu og vonar að þessar gjafir eigi eftir að koma að góðum notum á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

Pétur formaður félagsins mátar sig í nýjann stól.