70. ára afmælisdagur Krabbameinsfélags Akureyrar & nágrennis

Í tilefni 70 ára afmæli Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis var opinn viðburður í Menningarhúsinu Hofi 21. nóvember. 

 

Það voru um 100 manns sem voru saman komin til að njóta dagsins og þakkar félagið kærlega þeim sem mættu. Það var mikil ánægja með dagskrána en Selma Sigurjónsdóttir formaður félagsins var með ávarp, Nick Cariglia sérfræðingur í meltingarsjúkdómum var með erindið Þögull morðingi og Hildur Eir Bolladóttir sagði reynslusögu. Á meðan gestir fengu sér veitingar sungu Jónína Björt og Ívar Helgason fyrir gesti. Pétur Þór úr stjórn félagsins var fundarstjóri. 

Hér er hægt að lesa ávarp Selmu Sigurjónsdóttur formanns félagsins. 

 

 

 

Styrkur frá Dekurdögum 

Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir sem standa fyrir Dekurdögum afhentu félaginu styrk sem safnaðist í október 2022. Dekurdagar hafa verið einn stærsti einstaki bakhjarl félagsins hér á Akureyri og var styrkurinn í ár 5.000.000 krónur . Í ávarpi Selmu formanns á afmælinu sagði hún "Mig langar sérstaklega að þakka þessum kjarnakonum fyrir ómælda vinnu, stuðning og kraft í þágu félagsins – það munar svo sannarlega um minna – svo ekki sé nú talað um hversu dásamlegur yndisarður skapast um allt samfélag þar sem bleikar slaufur gleðja og gleðin skín á fjölmörgum viðburðum tengdum Dekurdögum". Félagið þakkar Ingu og Vilborgu ásamt öllum sem tóku þátt í að styrkja verkefnið fyrir stuðninginn. Ykkar stuðningur skiptir okkur miklu máli. 

 

 

Styrkur frá Bakarínu við Brúna

Bakaríið við Brúna gaf félaginu tvær afmæliskökur í tilefni dagsins sem slógu í gegn. Að auki seldu þau bleika köku í október til styrktar félaginu og var sá styrkur upp á 218.900 krónur. Félagið þakkar kærlega fyrir velvildina og stuðninginn. 

  

 

 

 

 

 

Þakkir

Stjórn & starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis þakka enn og aftur öllum sem mættu. Takk vinir, félagsmenn & velunnarar. Viðburðurinn var styrktur af Velunnarasjóð Krabbameinsfélagsins.