Lög félagssins

Lög og samþykktir Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis

 

1. gr. Nafn félagsins og lögheimili

Félagið heitir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og er félag til almannaheilla og starfar í samræmi við lög nr. 110/2021. Heimili og varnarþing þess er á Akureyri. Félagið er aðildarfélag Krabbameinsfélags Íslands.

 

2. gr. Tilgangur félagsins og markmið

Tilgangur félagsins er að starfa í þágu krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra ásamt því að beita sér í baráttunni gegn krabbameinum á grundvelli eftirfarandi markmiða:

a) Veita krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra stuðning og fræðslu.

b) Auka þekkingu almennings á krabbameinum með umræðu og fræðslu um forvarnir og einkenni krabbameina.

c) Vera málsvari krabbameinsgreindra og beita sér fyrir réttindum þeirra.

d) Tryggja góð samskipti við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi og önnur aðildafélög Krabbameinsfélags Íslands með miðlun upplýsinga og samvinnu.

 

3. gr. Félagsaðild og -gjöld

Allir lögráða einstaklingar geta gerst félagsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis með því að greiða árlegt félagsgjald. Félagar fá sendar fréttir af félaginu, boð á viðburði og aðalfund félagsins.

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.

 

4. gr. Fjármögnun

Fjármögnun félagsins fer fram með:

a) Innheimtu félagsgjalda.

b) Frjálsum framlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum og góðgerðarfélögum.

c) Styrkjum sem félagið sækir um t.d. í styrktarsjóði, til hins opinbera o.s.frv.

d) Sölu á varningi, t.d. minningarkort.

e) Öðrum fjáröflunum sem aðalfundur eða starfsmenn kunna að koma með hugmyndir um.

 

5. gr. Starfstímabil

Starfs- og reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

6. gr. Aðalfundur

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar, sem skal haldinn fyrir 15. maí ár hvert. Boða skal til fundarins með minnst 2ja vikna fyrirvara með tryggilegum hætti. Fundargögn skulu vera aðgengileg viku fyrir fund. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skal stjórn gera upp liðið starfsár. Aðalfund geta setið félagar og starfsmenn félagsins. Atkvæðarétt um málefni félagsins hafa þeir sem greitt hafa félagsgjald liðins starfsárs.

Á aðalfundi skal taka fyrir eftirfarandi dagskrárliði: 

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár lögð fram
 3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
 4. Markaðs- og starfsáætlun félagsins fyrir komandi starfsár kynnt
 5. Fjárhagsáætlun lögð fram til samþykktar
 6. Tillögur um lagabreytingar
 7. Ákvörðun félagsgjalds
 8. Kosning formanns
 9. Kosning annarra stjórnarmanna
 10. Kosning skoðunarmanns reikninga
 11. Önnur mál

Einfaldur meirihluti félagsmanna ræður úrslitum mála á aðalfundi, nema annað sé tekið fram.

Tillögur að lagabreytingum skulu berast formanni stjórnar minnst tíu dögum fyrir aðalfund og kynntar sem slíkar í fundargögnum.

Til breytinga á lögum félagsins þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.

Ef brýna nauðsyn ber til getur stjórn boðað til aukaaðalfundar með samþykki a.m.k. 2/3 hluta stjórnarmanna á hefðbundnum stjórnarfundi. Stjórn ákveður dagskrá aukaaðalfundar. Boða skal til hans með sama hætti og ef um hefðbundinn aðalfund sé að ræða. Um greiðslu atkvæða á aukaaðalfundi gilda sömu samþykktir og á aðalfundi.

 

7. gr. Stjórn

Stjórn fer með málefni félagsins á milli aðalfunda.  Stjórnin er skipuð sjö stjórnarmönnum, þ.e. formanni og sex meðstjórnendum. Æskilegt er að stjórnarmenn komi bæði frá Akureyri og nærsveitum og séu af öllum kynjum.

Formaður og stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn.

Kosið er um þrjú sæti meðstjórnenda á hverjum aðalfundi. Endurkjósa má stjórnarmenn, en að jafnaði skal miða við að stjórnarmenn sitji eigi lengur en fimm kjörtímabil (samtals 10 ár). Árlega er kosinn fyrsti og annar varamaður í stjórn.

Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund kýs stjórnin úr sínum hópi varaformann, gjaldkera og ritara.

Formaður, eða starfsmaður (sjá 8. grein) í umboði hans, boðar til stjórnarfundar. Fundir skulu að jafnaði haldnir mánaðarlega og oftar ef sérstök tilefni eru til. Formaður og starfsmaður semja dagskrá stjórnarfundar sem send skal út með fundarboði til stjórnarmanna. Stjórn tekur ákvörðun um setu starfsmanna á fundum stjórnar.

Kalla skal til stjórnarfundar ef fjórir stjórnarmenn eða fleiri óska þess.

Stjórnin kýs fulltrúa á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands.

Stjórn er heimilt að skipa uppstillingarnefnd vegna stjórnarkjörs og þá ekki síðar en mánuði fyrir aðalfund. Framboðum til stjórnar skal skila inn eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund félagsins. 

 

8. gr. Rekstur

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og segir honum upp störfum. Stjórn er þó heimilt að haga skipulagi starfa með öðrum hætti og falla frá ráðningu framkvæmdastjóra og tekur stjórn þá sjálf aukna ábyrgð á daglegum rekstri. Sé framkvæmdstjóri ráðinn ber hann ábyrgð á daglegum rekstri félagsins samkvæmt ráðningarsamningi og starfslýsingu sem stjórn setur honum. Þar skal m.a. kveðið á um umboð framkvæmdastjórans og hvenær leita þarf fulltingis stjórnar við ákvarðanatöku. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að upplýsa stjórn um rekstur og stöðu félagsins á hverjum tíma. Stjórn hefur eftirlit með starfsemi félagsins og tryggir að hún sé í samræmi við lög félagsins, fjárhagsáætlun og markmið.

 

9. gr. Fjármál

Félagið skal ætíð rekið á ábyrgan hátt og ekki skal stofna til verkefna eða skuldbindinga án ítarlegrar fjárhagsáætlunar þar sem gerð er grein fyrir því hvernig félagið ætlar að standa undir verkefninu og tilheyrandi skuldbindingum. Rekstrarafgangi eða hagnaði af starfsemi félagsins skal ætíð skila áfram til næsta rekstrarárs og hafi félagið tök á, skal stofna til varasjóðs sem ætlað er að:

 • Mæta hugsanlegum samdrætti í tekjum
 • Vera tryggingarsjóður vegna áfalla sem félagið kann að verða fyrir
 • Að fjármagna viðamikil verkefni sem aðalfundur kann að ákveða

Fé er lagt í varasjóð í samræmi við tillögur stjórnar í fjárhagsáætlun og samþykktir aðalfundar. Ráðstöfun úr varasjóð er aðeins heimil með samþykki aðalfundar. Varasjóður skal varðveittur í banka og/eða hjá löggiltu verðbréfafyrirtæki með öryggi frekar en háa ávöxtun að markmiði.

 

10. gr. Félagsslit

Ákvörðun um slit félagsins þarf samþykki tveggja aðalfunda í röð með samþykki a.m.k. ¾ greiddra atkvæða á hvorum fundi. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til Krabbameinsfélags Íslands.

 

Samþykkt á aðalfundi Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis mánudaginn 8. maí 2023