Aðalfundur Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis 2021

Aðalfundur Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis 2021

Aðalfundur Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis var haldinn 15.mars síðastliðinn í þjónustumiðstöð félagsins. Vegna covid-19 sóttvarnarregla var fundurinn fámennur, en 10 manns mættu. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem kostnir voru þrír nýjir stjórnarmenn í stað þeirra þriggja sem gengu úr stjórn. Fráfarandi úr stjórn voru Brynjólfur Ingvarsson, Védís Birgisdóttir og Jenný Valdimarsdóttir, félagið þakkar þeim kærlega fyrir þeirra störf í þágu félagsins í gegnum árin.

Jenný Valdimarsdóttir gekk úr stjórn en hún fer ekki langt þar sem hún hefur verið ráðin sem ráðgjafi hjá Ráðgjafaþjónstu Krabbameinsfélagsins og tekur við af starfi sem Katrín Ösp Jónsdóttir hefur sinnt undanfarin ár, en hún lætur af störfum í endaðan maí.

Kosinn var nýr gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Sem gjaldkeri var valinn Hólmar Erlu Svansson og meðstjórnendur eru Selma Dögg Sigurjónsdóttir og Arna Jakobsdóttir, félagið fagnar þessu flotta fólki og hlakkar til að vinna með þeim á næstu árum.

Það er óhætt að segja að Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hafi glímt við margskonar áskoranir á árinu sem leið. Í byrjun mars gætti fyrstu áhrifa Covid-19 á starfsemina með tilheyrandi sóttvarnarráðstöfunum og skerðingu á þjónustu. Í september sendi svo félagið út neyðarkall vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins en við getum með sanni sagt að samfélagið hafi tekið vel í bónina. Það sást vel á ársreikningnum sem gjaldkeri fór yfir á fundinum en rekstrargjöld ársins 2020 voru 32.637.534,- kr. krónur á móti 48.071.247,- kr. í rekstrartekjur. Sem sýnir rekstarhagnað upp á 15.433.713,- kr.  Félagið sýndi rekstrartap upp á 2.407.291,- kr. árið 2019.

Þrátt fyrir strembið ár skein í gegn mikið þakklæti hjá stjórnar- og starfsmönnum félagsins til samfélagsins, stuðningurinn og samkenndin sem félagið fann fyrir á þessum tímum er ómetanlegur og vill stjórn og starfsmenn enn og aftur þakka öllum þeim sem hafa stutt við félagið, á einn eða annan hátt, kærlega fyrir.

Árskýrslu félagsins fyrir árið 2020 má lesa hér.