Kastað til bata í Laxá í Laxárdal

Kastað til bata í Laxá í Laxárdal

Vel heppnuð Kastað til bata veiðiferð var farin þann 7.- 9.júní síðastliðinn. 14 manna hópur kvenna lagði land undir fót og hélt í 2 daga veiðiferð í Laxá í Laxárdal.

Kastað til bata er endurhæfingarverkefni fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini. Í ferðinni er konunum gefið tækifæri á að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa fluguköst í fögru umhverfi undir leiðsögn reyndra fluguveiðimanna og er ávallt tekið mið af líkamlegri getu þeirra. Á sama tíma njóta þær samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu og veiða ef heppnin er með þeim. Verkefnið er bandarískt að uppruna og heitir á ensku Casting for Recovery.

Þetta er í tíunda sinn sem boðið er upp á verkefnið. Stangaveiðifélag Reykjavíkur styður við Kastað til bata með því að leiðbeina veiðikonunum með réttu handtökin og Veiðihornið útvegar vöðlur og flugur handa þátttakendum.

Veiðiferðin er í tvo sólarhringa og með í hópnum eru starfsmenn Krabbameinsfélags Akureyrar og sjálfboðaliði frá Brjóstaheill-samhjálp kvenna, ásamt ráðgjafa frá Krabbameinsfélagi Íslands.

„Það eru 10 ár síðan þetta frábæra verkefni var sett á laggirnar og var ferðin í ár sérstaklega skemmtileg. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel konurnar tengjast og deila gleði og sorg, enda eiga þær svo margt sameiginlegt. Þær koma sjálfum sér á óvart með hvað þær geta og eru endurnærðar bæði á líkama og sál. Svo myndast mikil samkennd í hópnum, segir Halldóra Björg Sævarsdóttir framkvæmdarstjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Húmor og bjartsýni er aldrei langt undan þó umræðan sé stundum á alvarlegu nótunum.“

Kastað til bata er endurhæfingarverkefni á vegum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna og er konunum að kostnaðarlausu.

Hægt verður að sækja um að þátttöku í verkefninu fyrir árið 2020 eftir febrúarmánuð. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands, krabb.is, þegar nær dregur.

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, Krabbameinsfélags Íslands og Brjóstaheilla viljum við færa öllum stuðningsaðilum þakklæti okkar. Helst ber að þakka SVFR og Veiðihorninu ásamt Eirberg, Bakaríinu við Brúna, Quiltbúðinni, Florealis og Góu.