Krabbameinsfélag Íslands og KAON hafa gert með sér samkomulag um samstarf

Starfið á Akureyri fær öflugan meðbyr.

Krabbameinsfélag Íslands og KAON hafa gert með sér samkomulag um samstarf.

Nýlega var gengið frá samstarfssamningi Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis (KAON). Samningurinn tryggir faglegan og fjárhagslegan grundvöll þjónustuskrifstofu félagsins á Akureyri þar sem starfsemin hefur vaxið og dafnað undanfarin misseri. 

Í samstarfinu felst að Krabbameinsfélagið greiðir kostnað við eitt og hálft stöðugildi tveggja heilbrigðisstarfsmanna sem starfa við ráðgjöf hjá KAON en það er aukning á stuðningi þeim sem veittur hefur verið til reksturs KAON.

Sá stöðugleiki sem framlög Velunnara skapa eru forsenda þess að félagið geti stofnað til langtímaskuldbindinga við framfaraverkefni.

„Við fögnum þessum merkilegu tímamótum og samstarfinu á milli landshluta. Þetta er framfararskref og kemur til með að efla starfið okkar enn frekar. Með samningnum verður meiri festa í starfseminni og við starfsfólkið fáum vind í seglin,“ segir Halldóra Björg Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri KAON.