Krabbameinsskimun kvenna

Undanfarin misseri höfum við fundið fyrir auknum fjölda fyrirspurna um krabbameinsskimanir hér fyrir norðan. Nú um áramót mun fyrirkomulag skimana verða með breyttum hætti, en eftirfarandi upplýsingar koma fram á vef Heilsugæslunnar:

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breyta skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum á Íslandi í kjölfar tillagna skimunarráðs. Landspítala hefur verið falin framkvæmd skimana fyrir krabbameini í brjóstum frá 1. janúar 2021 í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Fer þjónustan fram á SAK og er gengið er inn um slysadeildarinngang. Heilsugæslunni hefur verið falin framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Mun hún fara fram á heilsugæslustöðinni á Akureyri frá og með 1. janúar 2021.

Við hvetjum konur sem hafa fengið boð í skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghási að fylgjast vel með upplýsingum inn á vef HSN, en þar má finna upplýsingar um hvenær er hægt að panta tíma á nýju ári: https://www.hsn.is/akureyri/krabbameinsleit 

Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er forvörn sem býðst einkennalausum konum. Konur sem finna fyrir einkennum frá brjóstum og kvenlíffærum er ráðlagt að leita til læknis.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hefur verið í góðu samtali við Heilsugæslunna og Sjúkrahúsið á Akureyri um gang mála og vonumst við til þess að þetta breytta fyrirkomulag reynist vel.