Kveðja frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis

Kveðja frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis

Það er sárt að kveðja kæra vinkonu og öfluga stjórnarkonu félagsins, Ólöfu Elfu Leifsdóttur. Ólöf Elfa gekk til liðs við félagið fljótlega eftir að hún veiktist af krabbameini. Sat hún í stjórn til hinsta dags og lét gríðarlega margt gott af sér leiða. Ólöf átti dýrmæta reynslu í farteskinu sem iðjuþjálfi og varð strax öflugur talsmaður í réttindabaráttu þeirra sem glíma við alvarleg veikindi. Ólöf var eldklár kona og hafði einstaka næmni á fólk. Full æðruleysis sá hún alltaf jákvæðu hliðarnar á lífinu og naut þess til síðasta dags. Dásamlegt hjartalag umvafði þá sem henni kynntust og urðu á vegi hennar. Það eru forréttindi að hafa fengið að njóta samvinnu og vináttu við Ólöfu Elfu. Við vottum aðstandendum öllum okkar dýpstu samúð.

Fh stjórnar og starfsmanna KAON Dóróthea Jónsdóttir