Nýr stjórnarformaður kosinn

Nýr stjórnarformaður var kosinn á aðalfundi í síðustu viku 

Aðalfundur Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis var haldinn í síðustu viku og sóttu 14 manns fundinn. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem kosinn var nýr formaður og stjórnarmaður. Fráfarandi úr stjórn er Sigríður Þorsteinsdóttir og kann félagið henni bestu þakkir fyrir hennar störf. Kosinn var nýr stjórnarmaður, Jón Gunnlaugur Stefánsson, sem jafnframt tók sæti varaformanns. Guðrún Dóra Clarke lauk 2 ára formannssetu og tók sæti sem meðstjórnandi en í hennar stað var kosin Anna Hulda Júlíusdóttir sem áður hafði gegnt stöðu meðstjórnanda. Félagið þakkar Guðrúnu Dóru fyrir styrka formennsku og áframhaldandi stjórnarsetu. Í lok fundar óskaði Anna eftir orðinu og þakkaði fyrir það traust sem henni er sýnt. Hún lýsti auk þess yfir vilja sínum til þess að styrkja ímynd félagsins í bæjarfélögunum í kringum Akureyri, en hún er einmitt sjálf búsett á Siglufirði. 

Gjaldkeri félagsins fór yfir reikninga síðasta árs þar sem kom fram að rekstrargöld ársins 2019 voru 38.269.657,- kr. á móti 35.862.366,- kr. í rekstrartekjur. Rekstrarhalli á árinu var því um 2.500.000,- kr, en hafði verið 6.600.000 árið áður og því ljóst að félagið skilaði betri afkomu milli ára. Tillögur að lagabreytingum voru einnig kynntar og samþykktar einróma. Breytingin felur í sér hnitmiðaðra og skýrara orðalag er varða störf stjórnar og framkvæmdastjóra. Þá var tilgangi og markmiðum félagsins ljáð meiri vigt með áherslu á þjónustu við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra á þjónustusvæði félagsins. Ný lög og ársskýrsla félagsins verða birt á vef þess undir flipanum um okkur.