Opnunartími yfir jól og áramót

Opnunartími yfir jól og áramót

Lokað verður hjá okkur frá og með 23. desember til og með 3. janúar. Þjónustumiðstöðin opnar á nýju ári þann 4. janúar klukkan 10:00. Við hvetjum þá sem eru með fyrirspurnir eða vilja bóka tíma hjá okkur á nýju ári að senda erindi á kaon@krabb.is 

Hægt er að leita til Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands yfir hátíðarnar, þar er lokað á aðfangadag og gamlársdag, annars hefðbundinn opnunartími frá kl. 9:00-16:00 alla virka daga. Símaráðgjöf er á opnunartíma í síma 800 4040.

 

Hátíðarkveðja og þakkir

Það er óhætt að segja að Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hafi glímt við margskonar áskoranir á árinu. Í byrjun mars gætti fyrstu áhrifa Covid-19 á starfsemina með tilheyrandi sóttvarnarráðstöfunum og skerðingu á þjónustu. Áhersla var lögð á að bjóða upp á stuðning við fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra í formi viðtala við ráðgjafa, en hópastarf og námskeið féllu að mestu niður til að takmarka hópamyndanir. Aukin símaþjónusta ráðgjafa og tilkoma fjarfundarbúnaðarins Kara Connect gerði okkur kleift að halda samskiptum við okkar skjólstæðinga þrátt fyrir takmarkanir og hefur það tekist vel til í ljósi aðstæðna. Þá jók Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélags Íslands við fræðslu og námskeið á rafrænu formi sem hefur gagnast fólki um allt land. 

Í september sendi Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis út neyðarkall vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins og er óhætt að segja að samfélagið hafi tekið vel í bónina. Stuðningurinn og samkenndin sem stjórn og starfsmenn hafa fundið fyrir er ómetanlegur og hafa fjárframlög borist frá fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu. Margir hafa látið starfsemina sig varða með einum eða öðrum hætti og má þar helst nefna fjölgun félagsmanna sem greiða árgjald til félagsins. Einnig þökkum við Krabbameinsfélagi Íslands fyrir veittan stuðning á árinu, sem við höfum notið meðal annars í gegnum Velunnarasjóð, en liðsinni þeirra hefur verið ómetanlegt á þessum óvissutímum. 

Við sendum vinum og velunnurum okkar bestu óskir um gleðilega hátíð og farsæld á nýju ári, með kærum þökkum fyrir stuðning og velvild á árinu sem er að líða.

Með hátíðarkveðju vonumst við til þess að þið eigið góðar stundir,

Stjórn og starfsfólk Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.