Styrkja KAON í minningu Aðalbjargar Hafsteinsdóttur

Þorsteinn Már Baldvinsson, Jenný Valdimarsdóttir og Gústaf Baldvinsson.
Þorsteinn Már Baldvinsson, Jenný Valdimarsdóttir og Gústaf Baldvinsson.

Vinirnir Gústaf Baldvinsson og Þorsteinn Már Baldvinsson færðu í vikunni Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis tvær milljónir króna til styrktar starfsemi félagsins.

„Félagið gegnir afar mikilvægu hlutverki í okkar heimabyggð, til að mynda með stuðningi og ráðgjöf við fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Við tileinkum framlagið í minningu Aðalbjargar Hafsteinsdóttur, sem hefði orðið 65 ára í dag 11. janúar en hún lést 8. ágúst á nýliðnu ári.

Hún var einstaklega glaðvær og bjartsýn í áralangri baráttu sinni við krabbamein og studdi marga af krafti á erfiðum stundum með jákvæðnina að leiðarljósi. Framlag Aðalbjargar til eflingar lýðheilsu var alla tíð einlægt og áhrif hennar til að auka lífsgæði fólks á starfssvæði KAON voru ómetanleg.

Við erum þakklátir Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrenni fyrir starfsemina og óskum því velfarnaðar. Sannarlega er þörf á slíku félagi í okkar heimabyggð,“  sögðu þeir Gústaf og Þorsteinn Már er styrkurinn var afhentur.

 

Svona styrkir koma sér einstaklega vel í rekstri félagsins, sem er alfarið rekið fyrir sjálfsaflafé, þ.e. stuðning frá félagsmönnum, einstaklingum og fyrirtækjum á svæðinu, ásamt rekstrarstyrk og verkefnastyrkjum frá Velunnurum Krabbameinsfélags Íslands.

Félagið er þeim ævinlega þakklátt fyrir að hugsa aftur til okkar og styrkja. Með svona stuðning getum við haldið okkar mikilvægu starfsemi gangandi.

Með bestu kveðjum og kærum þökkum, stjórn og starfsfólk Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.