Styrkveiting frá Norðurorku

Fimmtudaginn 10. janúar úthlutaði Norðurorka styrkjum til samfélagsverkefna og fór athöfnin fram í Háskólanum á Akureyri.

Í október 2018 auglýsti Norðurorka hf. eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna og rann umsóknarfrestur út um miðjan nóvember. Fram kom að veittir væru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Markmið með styrkjum Norðurorku hf. er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.

Alls bárust 88 umsóknir.  Flestar umsóknir bárust frá aðilum á starfssvæði Norðurorku sem nær frá Fjallabyggð til Þingeyjarsveitar en einnig komu nokkrar umsóknir annarsstaðar frá. Verkefnin voru fjölbreytt og greinilega mikil gróska í samfélaginu á fjölmörgum sviðum en að þessu sinni hlutu 42 verkefni styrk og nam heildarfjárhæð styrkja sjö milljónum króna.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis fékk styrki fyrir tveimur verkefnum, málþingi í tengslum við Mottumars og fimm fræðslufyrirlestrum á vorönn.

Við hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis þökkum Norðurorku kærlega fyrir ómetanlegan stuðning við starf félagsins.

 

Hér má sjá frekari frétt um styrkveitinguna.