Sýnir hugrekki og samstöðu með því að gefa hárið sitt

Matthildur Ingimarsdóttir og mamma hennar Margrét með hárið klárt í kassa til sendingar.
Matthildur Ingimarsdóttir og mamma hennar Margrét með hárið klárt í kassa til sendingar.

Matthildur Ingimarsdóttir frá Flugumýri ákvað að gefa hárið sitt til góðgerðarfélags í Bretlandi. Þessi flotta 11 ára gamla stúlka leit við hjá okkur ásamt móður sinni Margréti áður en þær póstlögðu gjöfina, en starfsmaður félagsins var þeim innan handar í ferlinu.

Það er óhætt að segja að þær mæðgur hafi snert við okkur enda greinilega fallegt samband þeirra á milli. Pabbi Matthildar greindist með krabbamein fyrir fjórum árum og því er málefnið henni nákomið. Upphaflega vildi Matthildur raka af sér hárið til að sína samstöðu með pabba sínum, en ákvörðunin vatt upp á sig og í framhaldinu fékk hárið fína framhaldslíf.

Það krefst hugrekkis að gefa hárið sitt, því fylgir útlitsleg breyting sem opnar oft á allskonar spurningar frá öðrum en þær mæðgur gáfu sér tíma til að ræða málið vel áður en haldið var á hárgreiðslustofuna. Vinir, bekkjafélagar og umsjónakennari Matthildar í Giljaskóla hafa einnig veitt henni góðan stuðning og í augum Matthildar var þetta sjálfsagt og eftirsjáin af hárinu engin. Hún viðurkenndi þó að í ogguponsustund, rétt þegar flétturnar voru farnar, hafi hún hugsað „ó nei". Það hafi þó rjátlast af henni um leið og hárgreiðslukonan snyrti hárið betur, enda fer það henni vel að vera með stutt hár. Hún sagði okkur svo frá því kíminn að nú setji hún hraðamet í sturtu, pabba hennar til mikillar gleði, enda margfallt fljótlegra að þvo svona stutt hár.

Matthildur valdi að gefa hárið til góðgerðafélags sem nefnist Little Princess Trust og er staðsett í Bretlandi. Félagið nýtir hárið í að búa til hárkollur fyrir börn sem hafa misst hárið í kjölfar krabbameinsmeðferðar eða vegna annara sjúkdóma. Á vefsíðu Little Princess Trust má finna ítarlegar leiðbeiningar um hvernig er best að undirbúa og klippa hár sem á að gefa, ásamt því hvernig á að búa um það fyrir sendingu.

Það var fróðlegt að fylgjast með ferlinu hjá Matthildi og hugrekki hennar og sjálfstraust er aðdáunarvert. Okkur hlakkar til að fylgjast með þessari flottu stúlku í framtíðinni!