Þakkir til ykkar kæru hlauparar!!

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram 18 ágúst síðast liðinn. Það voru 14 einstaklingar sem hlupu fyrir okkur, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.
Fyrir það erum við virkilega þakklát. 

Það er mikill heiður þegar einstaklingur velur okkar félag til þess að styrkja því við vitum vel að það eru mörg góð og þörf málefni sem gott er að styrkja. En hvað gerir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis? 

Undanfarin tvö ár hefur verið gríðarleg aukning á starfsemi félagsins. Haustið 2016 voru tveir starfsmenn í samtals einu stöðugildi. Í vetur verða fjórir starfsmenn í tæplega fjórum stöðugildum og um mánaðarmótin sept/okt mun KAON flytja í Glerárgötu 34 sem er mun stærra og betra húsnæði. Líkt og áður verður hægt að fá einstaklings eða fjölskylduviðtal við hjúkrunarfræðing og/eða sálfræðing. Einnig verður áfram mikið hópastarf þar sem við reynum að mæta fjölbreyttum þörfum, barna, ungmenna og fólks almennt hvort sem þau eru aðstandendur eða hafa sjálf greinst með krabbamein. Við leggjum okkur fram í að vera í samstarfi við önnur krabbameinsfélög, SAk og HSN til þess að vera með sem besta þjónustu. 

Kæru hlauparar, við þökkum kærlega fyrir traustið sem við fáum og veittan stuðning.

Fyrir hönd KAON

Katrín Ösp Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur