Til hamingju með að vera mannleg - Hofi Akureyri

Sigríður Soffía  braut blað í íslenskri menningarsögu í vor sem leið þegar hún gaf út sína fyrstu ljóðabók og frumsýndi á sama tíma dansverk við ljóð bókarinnar í Þjóðleikhúsinu, ljóðabálkurinn er magnaður og oft verulega átakanlegur.

Sýningin Til hamingju með að vera mannleg vakti mikla athygli þegar hún var frumsýnd á liðnu vori, hlaut afar lofsamlega umfjöllun og þrjár tilnefningar til Grímuverðlaunanna. Sýndar voru aukasýningar á stóra sviði Þjóðleihússinss í október í tengslum við Bleiku slaufuna, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins.

Sýningin er byggð á ljóðabók Siggu Soffíu sem hún samdi þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Hvað gerir dansari sem getur ekki dansað? Verkið fjallar um mikilvægi vináttunar, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri. Ástarjátning til lífsins - ljóð, leikur, söngur, grín og dans!

Í verkinu dansa og leika föngulegur hópur kvenna leikkonurnar/dansararnir Nína Dögg Filippusdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir, Lovísa Ósk Gunnardóttir og Ellen Margrét Bæhenz, Díana Rut Kristinsdóttir og Inga María Ólsen (sem leikur hlutverk Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur)

 

Verkið verður nú sýnt í Hofi Akureyri þann 16. mars og mun 1.000 kr. af hverjum seldum miða ganga til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

 

Sigríður segir:

"Ástæða þess að ég er að koma með þessa sýningu norður er að ég hef fengið ótal email frá konum og aðstandendum sem hafa lesið ljóðabókina og komið á sýninguna og fært mér einlægar þakkir. Þegar ég greindist með brjóstakrabbamein þekkti ég engann sem hafði veikst og í mínum litla heimi fannst mér eins og ég væri eina unga konan með brjóstakrabbamein.

Mig vantaði svo fyrirmynd einhvern sem hafði gengið í gegnum þessa eldskírn og komið út hinumegin. Ég sá Hildi Björnsdóttur í Vikunni hjá Gíslamarteini þar sem hún nefndi að hún hefði veikst. Þá sat ég mjög hrædd með túrban á hausnum í sófanum búin með 2 hringi í lyfjameðferð að hugsa um hvernig í ósköpunum ég gæti gert þetta í 6 skipti í viðbót og sá þessa glæsilegu konu tala um þetta í fortíðinni. 

Það skipti mig gríðarlegu máli að sjá hana - manni vantar fyrirmynd sem maður tengir við. Ég ákvað þegar ég sá frammá bata að ég myndi reyna að hjálpa þeim sem á eftir mér koma. Þetta er svakalega erfitt tímabil en það er erfitt að sjá að þetta sé tímabil þegar maður stendur inní eldinum.

Það er líka svo gott að finna samhljóm - að vita að öðrum finnst þetta erfitt líka en marsera í gegn. Minn stærsti lærdómur var að biðja um hjálp og þiggja hjálp. Og verkið Til hamingju með að vera mannleg fjallar um það, samhljómin og vináttuna, þakklætið fyrir að geta dukkið heitann kaffibolla í morgunfrosti. 

Fegurðina í hversdagsleikanum og áminning fyrir alla-burtséð frá veikindum að þegar eitthvað kemur uppá þá fær maður svo kristalstæra sýn á hvað skiptir mann raunverulega máli -Að hlægja og vera með þeim sem maður elskar."

 

Sýning sem enginn má láta fram hjá sér fara, félagið hvetur fólk til að fjölmenna, sýna samstöðu, láta gott af sér leiða og njóta!

 

Hér má horfa á viðtal við Sigríði í Kastljósinu um verkið 

Hér er hægt að kaupa miða á sýninguna - Tryggið ykkur bestu sætin sem fyrst!

Hér er viðburðurinn á facebook