Vel heppnað málþing „Börn og unglingar sem aðstandendur krabbameinsgreindra“

Það var margt um manninn á málþinginu „Börn og unglingar sem aðstandendur krabbameinsgreindra“, sem fram fór í sal Lionsklúbbsins Hængs í Skiptagötu 14 á Akureyri, miðvikudaginn 24.apríl.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis stóð fyrir þessum glæsilega viðburði. Dyggan stuðning veittu Norðurorka, Velferðarráðuneytið, Lionsklúbburinn Hængur, Krabbameinsfélag Íslands og Bakaríið við Brúna.

Gestir málþingsins hlýddu á fjölbreytt erindi ásamt því að boðið var upp á stórglæsileg tónlistar atriði og hádegismat. Andrea Gylfadóttir söngkona opnaði viðburðinn með vel völdum lögum ásamt því að Dúettinn Björn og Hafdís skemmtu gestum í hléi.

Þorri Snæbjörnsson sálfræðingur Krafts og Ráðgjafarþjónustu KÍ fjallaði um viðbrögð barna við álagi og erfiðleikum, Kristjana Ólafsdóttir iðjuþjálfi og móðir barns sem greindist með krabbamein sagði reynslusögu móður og fjallaði um verkefnið „Eftirfylgd út í lífið“. Gunnjóna Una Guðmundsdóttir félagsráðgjafi Ráðgjafarþjónustu KÍ sagði frá rannsóknum á líðan barna eftir andlát foreldris „Það skiptir bara öllu máli hvernig við undirbúum börnin“. Arnar Sveinn Geirsson flutti reynslusögu fullorðins sem missti foreldri úr krabbameini sem barn „Að leyfa sér að líða“. Kristín Ísleifsdóttir flutti reynslusögu móður sem greindist með eitlakrabbamein „Eftir meðferð, er þetta þá bara búið…?“.

Að lokum ræddi Elísabet Hjörleifsdóttir dr. í hjúkrunarfræði um það að tala við börn og unglinga.

Katrín Ösp Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis sá um fundarstjórn.

Gestir og aðstandendur málþingsins voru sammála um það að dagurinn hefði tekist vel, erindin verið áhugaverð og umgjörðin góð.

„Ég er stolt af því að fá að taka þátt í að vekja athygli á þörf fyrir meiri stuðning fyrir börn og unglinga sem eru aðstandendur krabbameinsgreindra. Vonandi verður meiri þróun í stuðningi fyrir þennan hóp barna. Þessu málefni geta allir lagt lið með því einfaldlega að hjálpast að við vera til staðar fyrir þau börn sem þurfa á því að halda“, sagði Regína Ólafsdóttir sálfræðingur og ráðgjafi hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis í lok dags.