300 manns á málþingi um karla og krabbamein

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) stóð fyrir þessum glæsilega viðburði í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands og dyggan stuðning veittu Norðurorka, N4, Akureyrarstofa og JMJ herradeild.

Um 300 manns komu í Hof og hlýddu á fjölbreytt erindi og Geysir – Karlakór Akureyrar rammaði inn upphaf og endi með dúndrandi söng. Gestir nutu einnig ljósmyndasýningarinnar Meiri menn sem sett var upp á göngum Hofs. Sýningin byggir á persónulegum sögum átta karlmanna víðsvegar af landinu sem greinst hafa með ólíkar tegundir krabbameina.

Eiríkur Jónsson, þvagskurðalæknir, fjallaði um einkenni krabbameina í körlum, hjónin Ingimar Jónsson og Margrét Óladóttir deildu áhrifaríkri reynslusögu sinni af veikindum Ingimars og áhrifum þeirra á fjölskylduna. Dr. Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélagi Íslands fjallaði um breytingar á sjálfsmynd karlmanna í veikindum og Guðmundur Pálsson, vefsstjóri félagsins, kynnti nýtt fræðsluverkefni, karlaklefinn.is, sem er vefur með fræðsluefni af ýmsum toga sem sérstaklega er ætlað karlmönnum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, flutti ávarp og Friðbjörn Reynir Sigurðsson, lyf- og krabbameinslæknir sá um fundarstjórn.

Það var samdóma álit gesta og aðstandenda málþingsins að vel hefði tekist til, erindin verið áhugaverð og umgjörðin glæsileg.

„Dagurinn hefur verið frábær og við erum ákaflega glöð með hvernig til tókst, full þakklæti til þeirra fjölmarga sem lögðu okkur lið og auðvitað þessa stóra hóps sem hingað kom og naut dagskrárinnar með okkur”, sagði Katrín Ösp Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis í lok dags.

Hægt er að skoða upptöku frá ráðstefnunni í streymisveitu Krabbameinsfélagsins og á Facebook-síðu Mottumars má sjá myndasafn með svipmyndum Auðuns Níelssonar frá málþinginu.

Texti: Guðmundur Pálsson - Kí