GÆFUSPOR

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hvetur alla til þess að taka gæfuspor í eigin lífi í maí! Við kynnum einföld skref sem draga m.a. úr líkum á því að greinast með krabbamein auk þess að vera heilsubót og létta lund! Allir geta tekið þátt á sínum forsendum og með því að bæta til hins betra frá daglegum venjum með litlum gæfusporum ert þú á réttri leið! Hvaða gæfuspor ætlar þú að taka?

HREYFING

Reglubundin hreyfing dregur úr líkum á krabbameinum auk þess sem hreyfing er til góðs fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á hormónajafnvægi líkamans, minnkar bólgumyndun og hraðar ferð fæðunnar í gegnum meltingarveginn. Við mælum með minnst 30 mínútna hreyfingu á dag og leggjum til einfaldar leiðir til að bæta við hreyfingu í daglegt líf:

 • Létt ganga í Kjarnaskógi eða í hverfinu þínu
 • Sitjandi æfingar á stól fyrir þá sem eiga erfitt með gang
 • Vinna í garðinum
 • Ganga eða hjóla til og frá vinnu
 • Taka tröppurnar í stað lyftu
 • Leggja lengra frá matvöruversluninni 

Hver og einn metur sína getu, en við hvetjum alla til að taka gæfuspor með hreyfingu. 

 

MATARÆÐI

Hollt mataræði felur í sér hæfilegt magn af fjölbreyttum fæðutegundum sem veita alla þá orku og næringarefni sem líkaminn þarf á að halda. Tillaga að bættu mataræði:

 • Velja oftar heilkornavörur, fisk, baunir og linsur, ávexti og grænmeti
 • Vera dugleg að drekka vatn 
 • Velja hollari kostinn
 • Borða hægar og njóta matarins

 

LÍKAMI OG SÁL

Það er mikilvægt að huga að líkama og sál, hér eru nokkrar tillögur um einföld gæfuspor:

 • Sofðu rótt! Svefn gefur líkamanum tækifæri til að hvílast og endurnærast, sem styrkir ónæmis- og taugakerfi hans. Mælt er með 7-8 tíma svefni á sólahring fyrir fullorðna einstaklinga. 
 • Notaðu sólavörn til að verjast geislum sólarinnar og minnkaðu um leið líkur á húðkrabbameini
 • Andaðu! öndunaræfingar og líkamsslökun hjálpa þér að slaka á taugakerfinu og stuðla að jafnvægi og vellíðan.
 • Taktu frá tíma í dagsins önn til að sinna áhugamálum þínum, til dæmis með lestri góðrar bókar, handavinnu, fluguhnýtingum eða hvað það sem gleður andann.
 • Hugaðu að þeim sem standa þér næst, ræktaðu vinasambönd, hringdu símtalið, haltu matarboð, skildu eftir smá glaðning á dyraþrepi.
 • Líttu við! Hefur þú eða einhver nákominn þér greinst með krabbamein? Þitt gæfuspor gæti verið að líta við í heimsókn til okkar, við bjóðum upp á jafningjastuðning, viðtöl í ráðgjafajónustunni, öflugt hópastarf og gagnleg námskeið. Svo er kaffið líka gott!

 

TÉKKAÐU Á ÞÉR

Með mánaðarlegri sjálfsskoðun eykur þú líkur til þess að uppgötva krabbamein snemma. Taktu gæfuspor og þreifaðu brjóstin/eistun reglulega!

 

VERTU MEÐ!

Með því að velja þér gæfuspor ertu strax orðin þátttakandi! Þú getur skrifað þín gæfuspor á blað sem einskonar áminningu og sett þér það markmið að gera það að daglegri venju. Þú getur einnig skorað á vini og vandamenn að kynna sér gæfusporin og taka þátt, sjá facebook síðu félagsins.

 

ÞITT FRAMLAG SKIPTIR MÁLI!

Starf Krabbameinsfélags Akureyrar og Nágrennis byggist alfarið á stuðningi einstaklinga og fyrirtækja. Hjálpaðu okkur að standa vörð um krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra með því að leggja okkur lið. Sjá hér